Faithlife Sermons

Þrenn

Sermon  •  Submitted
0 ratings
· 5 views
Notes
Transcript
Sermon Tone Analysis
A
D
F
J
S
Emotion
A
C
T
Language
O
C
E
A
E
Social
View more →

Litur: Rauður

Sálmar

Upphafssálmur: Dýrð í hæstu hæðum (Sálmabók 4)
Fyrir ritningarlestur: Mikli Drottinn, dýrð sér þér (Sálmabók 29)
Fyrir prédikun: Vor Guð oss lýsa lát þitt orð (Söngblað)
Bænarsálmur: Sterk eru andans bönd (Söngblað)
Lokasálmur: Nú héðan burt í friði’ eg fer (Sálmabók 424)

Tilkynningar fyrir messu

Velkomin til Messu. Í dag er sunnudagur eftir Hvítasunnu, og er hann einnig kallaður Trínitatis eða Þrenningarhátíð á Íslensku.

Kollekta

Almáttugi eilífi Guð, þú sem hefur kennt oss, þjónustumönnum þínum, í sannri trú að játa eilífa dýrð Þrenningarinnar, og ennfremur, í krafti máttar þíns, að tilbiðja eininguna. Vér biðjum: Halt þú oss stöðugum í hinni sönnu trú, og varðveit þú oss frá öllum óvinum. Því þú, Faðir, Sonur og Heilagur Andi lifir og ríkir: Sannur Guð um aldir alda.
Amen.

Barnastund

Ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í Jesajabók, 6. kafla, versum 1-8
Isaiah 6:1–8 Biblían 1981
1 Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. 2 Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. 3 Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: "Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð." 4 Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk. 5 Þá sagði ég: "Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar." 6 Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng, 7 og hann snart munn minn með kolinu og sagði: "Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína." 8 Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: "Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?" Og ég sagði: "Hér er ég, send þú mig!"
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Guði sé þakkargjörð.
L: Síðari ritningarlestur þessa Drottins dags er að finna í bréfi Páls til rómverja, 11. kalfa, versum 33-36
Romans 11:33–36 IS1981
33 Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! 34 Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?35 Hver hefur að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið? 36 Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.
L: Þannig hljómar hið heilaga orð.
S: Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs! Hvert annað ættum vér að fara!

Guðspjall

P: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Jóhannes
S: Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.
P: Guðspjall þessa Drottins dags er að finna í Jóhannesarguðspjalli, 3. kafla, versum 1-15
John 3:1–15 IS1981
1 Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. 2 Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: "Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum." 3 Jesús svaraði honum: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju." 4 Nikódemus segir við hann: "Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?" 5 Jesús svaraði: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. 6 Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi. 7 Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. 8 Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur." 9 Þá spurði Nikódemus: "Hvernig má þetta verða?" 10 Jesús svaraði honum: "Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta? 11 Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. 12 Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku? 13 Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. 14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, 15 svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.
P: Þannig hljómar hið heilaga guðspjall.
S: Lof sé þér Kristur.

Prédikun

Inngangur

Fyrstu þrjú guðspjöllin í nýja testamentinu leggja áherslu á að segja frá starfi Jesú og þeim atburðum sem áttu sér stað í kringum hann, og rita sammfellda sögu. Lúkasguðspjall byrjar meira að segja á þessum orðum: “Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörst hafa meðal vor.”
Fjórða guðspjallið, Jóhannesarguðspjall, er frábrugðið þessu sniði. Jóhannes leggur ekki áherslu á sammfelda sögu, heldur á það að skýra merkingu atburðanna. Í fyrri hluta guðspjallsins velur hann sjö kraftaverk sem Jesús gerði, segir stuttlega frá sjálfu kraftaverkinu, og bætir svo við bæði ræðu og umræðum sem þeim fylgdu. Til dæmis lætur han sér ekki nægja að segja frá því þegar Jesús gaf mannfjöldanum brauð og fiska, heldur lýsir hann því hvernig kraftaverkið uppfyllir væntingar gamla testamentisins til Messíasar, og því næst hvernig Jesús sjálfur er brauð lífsins.
Fyrsta táknið sem Jóhannes segir frá er einnig fyrsta tákn Jesú, þegar han breytir vatni í vín, í brúðkaupinu í Kana. Í öðrum kafla, versi 11, ritar hann: “Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.” Í framhaldi af því er sjónum beint að því sem koma mun, þegar Jesús deyr á krossinum og rís að nýju á þriðja degi.

Nikódemus

En þá vaknar önnur spurning: Voru það lærisveinarnir einir, eða voru líka aðrir sem trúðu á hann? Þeirri spurningu er svarað með því að segja frá samtali Jesú við farísean Nikódemus, sem kemur til Jesú um nótt. Reyndar var hann ekki bara farísei, heldur einnig ráðsherra meðal gyðinga. Hann var einn af þeirra æðstu leiðtogum.
Því er stundum haldið fram að það var lítið athugavert við hegðun Nikódemusar. Samkvæmt skilningi gyðinga var komin nótt þegar við sólsetur, og hugsanlegt er að hann hafi verið kominn til hans rétt eftir klukkan 18. Það getur svosem verið satt, en það breytir ekki því að Nikódemus kom ekki til Jesú fyrr en hann gat komið í skjóli myrkurs, og þessi hegðun var nægilega athugaverð til þess að hennar er getið í guðspjallinu. Nikódemus vildi augljóslega ekki láta sjá sig þegar hann kom til Jesú.

Nikódemus viðurkennir tákn Jesú

En þegar hanns svo kemur innfyrir, vantar ekki stóru orðin: Vér vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gert þessi tákn sem þú gjörir nema að Guð sé með honum!
Hver eru þessir vér? Það liggur kannski beinast við að hér sé um að ræða farísea, fremur en Sanhedrin ráðið í Jerúsalem. Það þýðir þá að farísear hafa ekki bara tekið eftir táknunum sem Jesús gerði, heldur einnig rætt saman um merkingu þeirra og komist að þeirri niðurstöðu að þau voru óneitanlega frá Guði komin. Og þrátt fyrir það, hefur ekki verið eining milli þeirra um hvernig þeir ætti að bregðast við, því annars hefði Nikódemus ekki þurft að fela sig.
Eða kannski var þetta vér ekki til vitnis um neina samstöðu farísea, heldur einungis leið fyrir Nikódemus að tala um sjálfan sig, án þess að gefa of mikinn kost á sér. Hann talar eins og stjórnmálamaður, en er í raun og veru að tjá sína eigin játningu. Þótt hann hafi kannski enn ekki verið alveg viss, er ljóst að Nikódemus trúði á Jesú.
Hann segir: “þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gert þessi tákn sem þú gjörir nema að Guð sé með honum.”

Endurfæðingin

Hvernig svarar Jesús svoleiðis játningu? Hann kemur sér beint að efninu, því þessi játning fjallar ekki bara um líf og dauða heldur um eilíft líf og eilífan dauða. Hann segir:
“Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.” Og hér mætti líka þýða: Nema að hann fæðist að ofan. Það felst hvort í öðru. Því Jesús bætir síðan við að endurfæðingin á sér stað fyrir vatn og Heilagan anda, og ennfremur að það sem af holdinu fæðist er hold, en það sem af andanum fæðist er andi.
Þegar venjuleg fæðing á sér stað, kemur barn sem tekið er af föður sínum og móður sinni. Barnið er því af nákvæmnlega sama tagi og þau tvö, foreldrar þess. Það á þó ekki bara við um að barnið hafi ákveðið erfðarefni, ákveðið útlit og ákveðna eiginleika, heldur hefur það sama eðli og foreldrar þess. Barnið hefur það eðli sem gengið hefur í arf frá fyrstu einstaklingunum, þegar Guð skapaði þau í upphafi til karls og konu.
En það er líka eðli sem snemma varð fyrir alvarlegri skemmd. Og sú skemmd er kölluð synd, og eðli mannsins er orðið að hinu synduga eðli mannsins. Skemmdin nær ekki bara til einvherjar tilhneygingar. Hún er ekki bara veikleiki, heldur er hún bölvun sem hefur áhrif bæði á líkama og sál. Hún veldur því að dauðinn er kominn inn í heiminn, og skemmir líkama okkar hægt og bítandi, þar til hvert okkar þarf að deyja. Hún hefur áhrif á hugrenningar okkar og verk. Allar hugsanir og öll verk, allar langanir og þrár hjartans, eru undir áhrifum syndarinnar. Við getum aldri gert eitt einasta verk sem ekki er undir áhrifum þess að við elskum okkur sjálf meira en skapara okkar og meira en náunga okkar. Meira að segja okkar bestu og kærleiksríkustu verk eru takmörkuð af syndinni, vegna þess að þau koma frá syndugu eðli.
Þetta eðli kemur frá foreldrum okkar og forfeðrum, og við getum í raun ekkert að því gert. En svoleiðis eðli á ekki samleið með Guði. Það vill ekki einu sinni eiga samleið með honum. Sá sem vill verða hólpinn, þarf að fæðast að nýju.

Hvernig má það vera?

En hvernig er það eiginlega hægt? Spurning Nikódemusar er eðlileg: “Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?” Nikódemus gerir sér augljóslega grein fyrir því að enginn getur fætt sjálfan sig að nýju, og augljóslega er það ekki hægt með því móti. Enda, ef það væri hægt, væri þar með ekkert betur fyrir manni komið. Það ætti þá áfram við að það sem af holdinu fæðist er hold.
Ný fæðing er ofanfrá. Jesús útskýrir fyrir Nikódemusi (og þarmeð fyrir okkur) að endurfæðingin kemur fyrir vatnið og fyrir starf Heilags anda. Jesús segir: “Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.” Hér er um að ræða starf Heilags anda, sem sérstaklega kemur til sjóna í heilagri skírn.
Postulinn Páll ústksýrir þetta betur í 6. kafla Rómverjabréfsins. Heilagur andi tengir okkur við dauða og upprisu Krists, og gefur okkur staðfestingu þess efnis í vatninu, þ.e.a.s. í heilagri skírn. Með vatninu koma loforð Krists um að við erum tengd honum þegar við tökum við launum syndarinnar, og deyjum frá þessu lífi. En rétt eins og við erum tengd honum í dauða hans, erum við þá ennig tengd upprisu hans, og munum rísa að nýju með honum. Leiðin til lífsins liggur því gegnum dauða og upprisu, rétt eins og Jesús dó og reis að nýju.
Kannski má lýsa þessu með nokkuð nýtískulegri mynd, þ.e. myndinni af sjóbjörgunargalla. Sjómaður á sökkvandi skipi, sem klæðist þannig galla, endar í sjónum eins og skútan öll. En jafnvel þótt han fari á kaf, er hann óhultur, því hann er tengdur við gallan. Gallinn fer á kaf með honum, en dregur hann svo aftur upp á yfirborðið. Þegar gallinn rís, rís einnig sá sem klæðist honum.
Í Galatabréfinu talar Postulinn Páll um skírnina með þessum orðum: “Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.”
Sá sem skírður er til Krists, trúir á hann og treystir honum, er með þessu móti nú þegar tengdur dauða Krists og upprisu hans. Endurfæðing, dauði og upprisa, hefur þegar átt sér stað í Kristi. Henni er þó ekki lokið enná, og lýkur reyndar ekki fyrr en lífi okkar hér á jörðinni er lokið, með okkar eigin dauða, og því næst okkar eigin upprisu. Þess vegna játum við í trúarjátningunni: Ég trúi á… upprisu holdsins.

Lokaorð

Það er ekki gott að segja hvernig samskiptum Jesú og Nikódemusar lauk þessa næturstund. Jesús bendir honum á að trúa á sig, og gerir það með þeim hætti að hann ítrekar hvers vegna hann er kominn. Hann er kominn til þess að vera upp hafinn á kross sinn, rétt eins og Móses hóf upp eirorminn í Sínaíeyðimörk. Hver sem leitar til hans eftir hjálp, mun fá hana. Hver sem á Krist trúir, mun ekki glatast, heldur eiga eilíft líf.
Áhrif þessarar ræðu hafa augljóslega verið mikil. Það kemur smám saman í ljós síðar. Í sjöuna kafla Jóhannesarguðspjalls, mótmælir hann hinum faríseunum einn síns liðs, þegar þeir vilja fordæma Jesú án nokkurra réttarhalda. Eftir krossfestingua, telur hann í sig kjark, og ásamt Jósef frá Arímaþeu, tekur hann við líkama Krists, vefur hann línklæðum ásamt dýrum smyrslum og leggur í gröf.
Jesús segir okkur að enginn geti séð ríki Guðs án þess að fæðast að nýju. Það er svona sem það á sér stað, með dauða Jesú og upprisu, og tengingu okkar við hvort tveggja. Að við íklæðumst Kristi í heilagri skírn og trúum á hann. Eins og ritað er: “Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.” (Mark 16:16)
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Játum saman trú okkar.

Tilkynningar eftir messulok

Related Media
Related Sermons